Skip to content

Fatahönnunarkeppni Geirþrúðar

Í byrjun nóvember var frjálst aukaverkefni í textíl kynnt til sögunnar. Verkefnið var að að hanna og búa til föt á plastbrúðuna Geirþrúði. 

Þátttaka var öllum nemendum í 5. bekk og eldri opin og nemendum var frjálst að vinna ein eða í hópi. Textílstofan var opin reglulega þar sem boðið var upp á aðstoð við hönnun, sníðagerð og saum. Að verkefninu loknu gafst kostur á að skila sinni hönnun inn í Fatahönnunarkeppni Geirþrúðar. 

Þátttaka í verkefninu var mjög góð og áhugi mikill, en alls tóku um 50 nemendur einhvern þátt. Fimmtán kláruðum verkefnum var skilað inn í keppnina en alls standa 33 nemendur á bak við þau.   

Fjórir starfsmenn skólans buðu sig fram til að vera dómarar, en þau fengu ekki að vita hvaða nemendur voru á bakvið hvaða hönnun. Stuðst var við ljósmyndir af Geirþrúði til að dæma í keppninni, en nemendur gátu óskað eftir sérstökum bakgrunni á sína mynd.

Afraksturinn var stórkostlegur og Kristína Berman, umsjónarkona verkefnisins dolfallin og hrærð að því loknu: 

,,Ég er mjög stolt af öllum þátttakendum í keppninni. Mér fannst ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með ykkur og aðstoða við að láta ykkar hugmyndir verða að veruleika. Þið eruð hugmyndaríkir og skapandi nemendur sem eru óhræddir við að prófa ýmislegt sem þið hafið ekki gert áður og það er aðdáunarvert. 
Mörg ykkar voru að hanna föt í fyrsta skipti, sum gerðu margar tilraunir áður en niðurstöðu var náð, flestir voru að sníða í fyrsta skipti, sumir höfðu jafnvel aldrei notað saumavél áður, gert hnappagöt, búið til áferð í efni, teiknað lógó, gert veski eða skó, og öll þorðuð þið að prófa og taka þátt. Þið eruð alveg frábær!
Geirþrúður er alsæl með öll nýju fötin sín og þakkar fyrir sig.”

Úrslitin hafa þegar verið kynnt í skólanum en á næstunni er stefnt á að afhenda sigurvegurum keppninnar bikar sem settur verður í glerskáp fyrir utan skrifstofu skólans ásamt nöfnum sigurvegaranna.

Myndir af framlögum og sigurhönnunin (1)