Skip to content

Foreldrasamstarf

Velferð barna og farsæl námsframvinda byggist ekki síst á því að foreldrar styðji við skólagöngu barna sinna og gæti hagsmuna þeirra í hvívetna, eigi gott samstarf við skóla, veiti skólanum viðeigandi upplýsingar og taki þátt í námi barna sinna og foreldrastarfi frá upphafi til loka grunnskóla. Upplýsingagjöf milli heimila og skóla og samráð kennara og foreldra um nám og kennslu er mikilvæg forsenda fyrir árangursríku skólastarfi. Skólar bera ábyrgð á að slíkt samstarf komist á og því sé viðhaldið alla skólagöngu barnsins. Virk hlutdeild og þátttaka foreldra í námi og starfi barna sinna er forsenda þess að foreldrar geti axlað þá ábyrgð sem þeir bera á farsælu uppeldi og menntun barna sinna.

Ábyrgð

 • Ábyrgð foreldra/heimila: Frumábyrgð á uppeldi, svefn, mæting, nesti, heimanám, að passa að allt sé með, lesa skilaboð, fordómar-/fordómaleysi, fylgjast með líðan barns með tilliti til eineltis, foreldrafundir, miðla upplýsingum.
 • Ábyrgð skólans: Fræðsla, félagsleg færni, fordómar-/fordómaleysi, taka á einelti, hópsýn, upplýsingastreymi, aðgengilegt samstarf, skólinn stjórnar áherslum hverju sinni.
 • Ábyrgð nemenda: Stundvísi, umgengni, tillitssemi, kurteisi, virðing, ábyrgð á námi og gjörðum.
 • Ábyrgð samfélagsins: Að skólinn og allur aðbúnaður standist kröfur nútímans og að starfsfólkið sé starfi sínu vaxið.

Viðtalstímar kennara eru á www.mentor.is og í handbók foreldra og nemenda, en foreldrar geta komið skilaboðum til kennara á öðrum tímum á skrifstofu og einnig í gegnum tölvupóst. Netföng kennara eru birt á heimasíðunni, í handbók foreldra og nemenda og einnig er hægt að senda kennurum tölvupóst á heimasíðu skólans.

Foreldrafélag

Við Háteigsskóla starfar foreldrafélag. Félagið heitir Foreldrafélag Háteigsskóla og eru allir foreldrar og forráðamenn nemenda í skólanum í félaginu. Stjórn þess er skipuð 5 aðalmönnum og 2 varamönnum. Félagið starfar bæði á bekkjarvísu og með þátttöku alls skólans svo sem á vorhátíð. Formaður foreldrafélagins situr reglulega fundi með skólastjóra og fulltrúa skólastjóra til að fara yfir helstu viðburði og að skiptast á skoðunum.
Árvissir atburðir: Aðalfundur í september. Tveir fulltrúaráðsfundir með bekkjarfulltrúum og stjórn. Opnir fræðslufundir á hverju skólaári. Öskudagshátíð. Ljósmyndataka í bekkjum. Vorhátíð fyrir allan skólann. Fundir með fulltrúum foreldra, nemenda og kennara. Nokkrar nefndir eru starfandi eftir þörfum. Ýmis tilfallandi verkefni, t.d. umræðufundir, samkomur og verkefni í samstarfi við starfsfólk skólans og nemendur.

Fulltrúaráð

Bekkjarfulltrúar allra árganga mynda fulltrúaráð. Það skal koma saman eigi sjaldnar en þrisvar á skólaárinu. Þar eru rædd mál er varða markmið og starf foreldrafélagsins, starf foreldra í bekkjar¬deildum, verkefni skólaráðs og nefnda félagsins. Stjórn foreldrafélags stýrir fulltrúaráðsfundum.
Umsjónarkennarar boða bekkjarfulltrúa árgangsins á einn af sínum fyrstu vikulegu samstarfsfundum til að kalla eftir upplýsingum um þátt foreldra í bekkjar- og félagsstarfinu. Gert er ráð fyrir einum fundi á hvorri önn.
Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir skólans og foreldra. Þeir sjá um ýmsa viðburði utan skóla í samráði við kennara og foreldra.

Skólaráð

Stjórn foreldrafélagsins tekur virkan þátt í starfi skólaráðs og velur tvo fulltrúa úr stjórn til að sitja fundina ásamt tveimur til vara. Skólaráðið er hluti af stjórnskipulagi skólans.

Kynningarfundir

Dagana 6. - 13. september er foreldrum boðið á kynningarfundi í skólanum. Tilgangurinn er bæði fræðsla og samvera. Miklu máli skiptir að foreldrarnir nái vel saman og þá kemur til kasta umsjónarkennarans sem stjórnar fundinum. Fólki þarf að líða vel, það þarf að kynnast innbyrðis og vita að það skiptir máli og hefur áhrif. Ef kynningarfundurinn er vel heppnaður má búast við góðu samstarfi foreldranna yfir veturinn. Handbók foreldra og nemenda skólans er afhent og yfirfarin, einnig bekkjarlisti og teknar niður pantanir á útprentaðri námskrá bekkjarins hjá þeim sem þess óska. Farið er yfir námsefni vetrarins og þær áherslur og væntingar sem kennarar hafa til vinnu nemendanna. Kynnt er skipulagið í skólanum, t.d. varðandi nesti og mat, sérgreinakennslu, skráningar og mætingar. Mætingalisti er látinn ganga og honum skilað til fulltrúa skólastjóra. Í samráði við foreldrafélag skólans hafa bekkjarfulltrúar verið kosnir á kynningarfundunum. Umsjónarkennarar þurfa að sjá til þess að handbækur berist heim til allra barnanna í bekknum.

Foreldraviðtöl

Tvisvar á vetri eru foreldraviðtöl í skólanum. Tilgangur þeirra er að skiptast á upplýsingum um nemendur og aðstæður þeirra og leita leiða til að bæta nám nemenda. Nemendur í 5. – 10. bekk koma með foreldrum sínum í viðtölin. Yfirleitt er gert ráð fyrir 15 – 20 mínútum á hvert viðtal og hengdir eru miðar á stofuhurðir þar sem hvatt er til að bankað sé þegar komið sé að næsta viðtali. Flestir kennara úthluta foreldrum vissan tíma til heimsókna, en sumir leyfa foreldrum að setja fram óskir varðandi fundartíma. Áður en tími er ákveðinn þarf að samræma hann á milli bekkja ef um systkini er að ræða (sjá aðstandendalista í Mentor). Viku fyrir foreldraviðtalsdag þurfa umsjónarkennarar að fá umsagnir um nemendur frá öðrum kennurum. Bæklinga um heimanám frá Heimili og skóla er hægt að nálgast hjá aðstoðarskólastjóra. Sérgreinakennarar eru til viðtals í sínum stofum á sama tíma og geta foreldrar pantað tíma hjá þeim ef þeir vilja. Stundum hentar að báðir kennarar í teymi taki viðtölin saman. Í þyngstu málum eru stjórnendur kallaðir til.

Upplýsingar til foreldra

Foreldrar hafa aðgang að upplýsingum um skólann og námið á margan hátt:

 • Að hausti er gefin út handbók foreldra og nemenda og eru þar upplýsingar um starfshætti í skólanum ásamt skóladagatali. Handbókin er afhent á kynningarfundi að hausti – sjá „Kynningarfundir" hér fyrir ofan.
 • Á sama tíma er bekkjarnámskrár gefnar út og gerðar aðgengilegar á heimasíðu skólans.
 • Foreldraviðtöl eru tvisvar á vetri – sjá „Foreldraviðtöl" hér fyrir ofan.
 • Upplýsingar um það sem gerðist í vikunni og það sem til stendur í næstu viku berst foreldrum með tösku- eða tölvupósti eða eru tiltækar á heimasíðu.
 • Fréttir af skólastarfinu eru birtar á heimasíðu skólans.
 • Mánaðarlega á starfstíma skóla er gefið út fréttabréf, Háteigur, sem fjallar um helstu viðburði í skólanum.
 • Foreldrar fá sendan tölvupóst til áminningar um væntanlega viðburði og frídaga nemenda.
 • Kennarar hafa oft samband við foreldra í síma eða í tölvupósti varðandi ýmis mál sem varða nemendur.
 • Kennarar hafa vikulegan viðtalstíma sem foreldrar geta nýtt sér og einnig geta foreldrar látið liggja fyrir skilaboð til kennara sem hringja þá til baka.