Denmark       United Kingdom

Heimanám

Heimanám

Heimanám er einn þáttur í daglegu lífi skólabarna. Áhugi foreldra á skólagöngu og vinnu barna sinna getur skipt sköpum fyrir velgengni þeirra í námi.

 1. Friður og ró
  Til að barnið geti lært þarf að vera friður og ró í kringum það. Börn á aldrinum 10 - 11 ára vilja oft hafa einhvern fullorðinn hjá sér við námið. Þá er t.d. upplagt að nota tímann á meðan þú lagar matinn, barnið lærir við eldhúsborðið á meðan. Yngri systkini mega ekki trufla en það getur verið jákvætt að eldri systkini aðstoði þau yngri. Námið hefur forgang, allir vinir ættu að fara heim þegar tími er kominn til að læra.


 2. Ekki of seint á kvöldin
  Til að heimanámið skili árangri þarf að koma á góðri reglu í sambandi við það. Verkefni barnsins eru alveg jafn mikilvæg og viðfangsefni annarra fjölskyldumeðlima og eiga ekki að sitja á hakanum.


 3. Æfingin skapar meistarann
  Einn tilgangur með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur verið farið í, þ.e. þjálfa betur ákveðin atriði.


 4. Einbeiting eykur árangur
  Stuttar, reglubundnar lotur þar sem barnið einbeitir sér að ákveðnu efni (10 - 20 mín) gera heimanámið árangursríkt. Börn skortir oft einbeitingu og þá getur verið gott að taka stutt hlé milli námsgreina. Fylgstu með hvernig barnið vinnur og hjálpaðu því að finna aðferð sem hentar.


 5. Barnið þarf að skilja verkefnið
  Allt námsefni krefst ákveðins grundvallarskilnings. Hlustaðu á barnið svo að þú getir betur aðstoðað það. Sýndu þolinmæði þegar þú útskýrir málin, taktu einföld dæmi úr hversdagslífinu og tengdu við eitthvað sem barnið þekkir á heimilinu.


 6. Talaðu jákvætt um heimanámið
  Ekki nöldra yfir heimanáminu þótt þér finnist það kannski hvimleitt. Jákvætt hugarfar auðveldar flest

  verkefni, það þekkjum við sjálf. Ef barnið fær of mikil heimaverkefni að þínu mati skaltu ræða það við kennarana.

 7. Engan samanburð við systkini eða aðra
  Þótt þú hafir verið fær í stafsetningu er ekki víst að barnið þitt upplifi sömu gleði yfir stafsetningaræfingunum. Gerðu frekar samanburð á því hvað barnið getur í dag og hvað það gat fyrir einu eða tveimur árum.


 8. Vertu í nánu sambandi við skólann
  Börnum líður vel ef þau vita af því að foreldrar og kennarar eiga góð og tíð samskipti. Ef eitthvað bjátar á heima, t.d. sorg eða veikindi, þarf að láta kennarana vita til að þeir geti stutt barnið betur í skólanum.


 9. Barnið ber ábyrgðina, foreldrarnir aðstoða
  "HINDRAÐU EKKI ÞROSKA BARNSINS ÞÍNS MEÐ ÞVÍ AÐ GREIÐA GÖTU ÞESS OF MIKIÐ." Stór hluti uppeldis er fólginn í því að láta barnið sjáft smám saman axla ábyrgð bæði á gjörðum sínum og misgjörðum. Ekki segja barninu svarið, hjálpaðu því heldur að finna lausnina.


 10. Notið ykkur tæknina
  Fyrir barn með lestrarerfiðleika er hægt að fá hljóðbækur lánaðar þegar kemur að því að lesa líffræði og Íslandssögu. Ljóð má lesa inn á band og myndbönd eru ómetanlegum miðill. Tölvur eru góð hjálpartæki t.d. í lestri, ritgerðarsmíði og stærðfræði og ýmis kennsluforrit eru fáanleg.


(Efni frá Heimili og skóla) 

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102