Denmark       United Kingdom

Áttin

Áttin


Áttin er samheiti yfir þá starfshætti sem starfsfólk Háteigsskóla hefur þróað til að viðhalda og auka vellíðan og festa góða hegðun í sessi. Nemendum sem líður vel stunda námið af ánægju og haga sér vel. Virðing og samvinna (regla) eru forsendur fyrir vellíðan. Nemanda líður vel, sem veit hvað hann á að gera og hvernig hann á að hegða sér. Ef nem­anda er sýnd virðing með mildum og jákvæðum viðbrögðum við góðri hegðun þá styrkist hann í þeirri hegð­un. Hann veit líka að verði honum á í messunni þá er tekið á því af mildi og festu í góðri samvinnu við for­ráða­menn. Það er samvinnu­verk­efni skólans og heimilanna að stefna öllum og allri starfsemi í átt að betri líðan og árangri. Áttin er því klár en það er eðli manna, jafnt barna sem fullorðinna, að þurfa sífellt að vera átta sig á sjálfum sér og að­stæðum sínum. Við sýnum fólki virðingu með því að fyrirgefa og gefa nemendum og samstarfsfólki kost á því að sanna sig að nýju; átta sig. Menn sem eru áminntir harka­lega, þeir hafa ekki löngun til að átta sig vegna þess að þeim hefur verið sýnd óvirðing. Við viljum að allir átti sig og öllum líði eins vel og kostur er.

 

Meginstoðir hugmyndarinnar um „áttina" er sáttmálinn, úrvinnslukerfið, eftirlit með líðan og áhersla á gott starfsumhverfi. Sáttmálinn var upphaflega saminn í samvinnu starfsfólks, nemenda og foreldra og hefur einnig verið haldið við á sama hátt. Úrvinnslukerfið byggir á lögum og reglugerðum en jafnframt á reynslu starfsmanna og skólastjórnenda í anda þeirra grunngilda sem einkunnarorðin segja fyrir um. Það er reglulega fylgst með líðan nemenda og starfs­fólks en upplýsingar um viðhorf sótt til foreldra til að reyna að tryggja að hugmyndirnar sem við byggjum skóla­starfið á komist í framkvæmd. Stöðugt þarf svo að vera að huga að starfsumhverfinu sem allir lifa og hrærast í.

 

Sáttmálinn 

Sáttmálinn um skólasamfélag Háteigsskóla er í fjórum köflum. Í fyrsta kaflanum er fjallað um almennar forsend­ur allra, í umgengni og samskiptum. Í öðrum kaflanum eru fimm almennar og skýrar skólareglur. Í þriðja kaflan­um eru leiðbeiningar til foreldra. Í fjórða kaflanum eru öryggisreglur. Sáttmálinn er um skólasamfélagið allt og leggur öllum skyldur á herðar, ekki bara nemendum. Þannig er lagður grundvöllur að hugmyndafræði með tilteknu regluverki þar sem sátt og virðing ríkir á milli þeirra sem tilheyra skólasamfélaginu.

 

Úrvinnslukerfi 

Í starfsmannahandbókinni er fjallað um úrvinnslu aga- og hegðunarfrávika á einfaldan hátt. Kjarninn í úrvinnslunni er meðferð upplýsinga. Skólinn safnar margvíslegum upplýsingum um nemendur. Á hverjum degi eru skráðar upplýsingar um mætingar. Þessar upp­lýsingar eru aðgengilegar foreldrum, umsjónarkennara og skólastjórnendum nánast samtímis og þær verða til í Mentor. Slakar mætingar, bæði seinkomur og fjarvistir, segja strax að eitthvað sé að sem þarf að skoða nánar. Skólinn bregst við í samræmi við reglur sem skólinn hefur sett og greint er frá í handbókinni undir fyrirsögninni misbrestur á skólasókn. Viðbrögðin snúast fyrst og fremst um að kalla foreldra til samstarfs um vandann og ef foreldrar eru ekki tilbúnir til samstarfs verður skólinn að leita til Þjónustumiðstöðvar miðborgar og Hlíða um frekari vinnslu málsins. Beri þessi vinna ekki árangur innan eðlilegra tímamarka er skólastjóri skyldugur að tilkynna málið til Barnaverndar Reykjavíkur í samræmi við lög um grunnskóla.[1]

Skólinn safnar daglega upp­lýsingum um hegðun nemenda í kennslustundum og upplýsingum um hvernig undirbúningi þeirra er háttað fyrir daginn. Þessar upplýsingar eru einnig varðveittar og aðgengilegar fyrir foreldra, umsjónarkennara og skólastjórnendur. Svipuð viðbrögð eru viðhöfð varðandi hegðunarvanda og vanhöld á ástundun og þegar fjallað eru um mætingar.

Skólinn safnar upplýsingum frá almennum starfsmönnum sem þurfa að áminna einstaka nemendur umfram það sem eðlilegt má teljast og er slíkum upplýsingum komið á framfæri við umsjónarkennara.

 

Eftirlit með líðan 

Könnun á líðan nemenda er gerð í lok október ár hvert. Þannig fá nemendur tækifæri til að veita umsjónarkennara og stjórnendum upplýsingar um líðan sína og benda á aðra sem líður illa eða áreita óeðlilega mikið. Eftir margra ára reynslu er könnunin orðin mælikvarði sem skólinn notar markvisst í eftirliti sínu með líðan nemenda. Þannig gefur könnunin strax upplýsingar um almenna líðan í einstökum hópum og skólanum almennt. Þá er hægt að bregðast við með frekari athugunum til að komast fyrir hvað veldur þeim frávikum sem sýna sig. Könnunin er nafnlaus og segir því ekki hverjum líður illa en hún segir hversu mörgum líður illa. Könnunin er sterk vísbending um hugsanlegt einelti.

Auk þessa koma fram vísbendingar um líðan í árlegri könnun til foreldra um viðhorf þeirra til skólans og eins í viðtölum við foreldra.

Eitt af mikilvægum verkefnum kennara og annarra starfsmanna er að fylgjast með líðan nemenda í skólanum en það er ein af skyldum umsjónarkennara.

 

Starfsumhverfið 

Reynt er að skipuleggja starfsumhverfi nemenda þannig að nemendum líði vel í skólanum. Margvíslegir starfs­hættir stuðla að því að gera nemendur ábyrga, að sýna þeim virðingu og treysta þeim fyrir verkefnum. Traust og virðing eru forsendur að góðri líðan og hegðun. Starfsmenn huga einnig að eigin líðan og starfsumhverfi í samráði við skólastjórnendur, því að meiri líkur eru á að ánægðir starfsmenn séu tillitssamir og skilningsríkir. Starfsmenn fá einnig tækifæri til að koma nafnlausum ábendingum á framfæri um líðan sína og starfsumhverfi í árlegri könnun í skólanum. Hvatning og hrós geta verið lykillinn að góðu starfsumhverfi.

 

 

 

Einkunnarorð skólans eru 

virðing - samvinna - vellíðan

 

 

 

Leiðarstef skólans eru að


- menntun sé hvatning til að sýna áræðni, beita hugviti og að hafa kjark til að framkvæma
- mennta í hlýlegu og skapandi umhverfi þar sem borin er virðing fyrir sérhverjum manni
- allir fái menntun við hæfi og njóti hæfileika sinna
- allir kennarar líti á alla nemendur sem sína nemendur
- efla sjálfstraust með því að hlusta, hvetja og hrósa.

 

(einkunnarorð og leiðarstef voru samþykkt á starfsmannafundi vorið 2009)


[1] Lög um grunnskóla, nr. 91 12. júní 2008, grein 14.

 

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102