Denmark       United Kingdom

Einkunnarorð

Einkunnarorð skólans


VIRÐING - SAMVINNA - VELLÍÐAN


Einkunnarorð skólans eiga að speglast í starfinu og vera leiðarstef sem vakir í vitund allra sem tilheyra skólanum. Þau minna okkur á hvað skiptir máli í okkar daglega starfi. Einkunnarorðin eru einnig mælistika á verk okkar því við hljótum að spyrja: Er ég að sýna virðingu með framkomu minni, er ég að stuðla að góðri samvinnu með skipulagi mínu og eykur virðing mín og samstarfshæfni vellíðan nemenda og samstarfsmanna minna?

Virðing

Við getum borið virðingu fyrir jafnt einstaklingum, umhverfi og hlutum.
Virðing fyrir einstaklingum á öllum aldri, öllum þjóðfélagshópum og af mismunandi þjóðerni leggur grunn að góðum mannlegum samskiptum. Virðing er skilningur á forsendum og sögu einstaklinga. Virðingin er skilningur sem leiðir til þess að við umgöngumst hvert annað af nærgætni og notum hvorki orð né æði sem lítillækka viðmælendur okkar. Hver maður á síðan rétt á að skoðanir hans og viðhorf séu virt eins og hann sjálfur. Virðingin gerir það að verkum að við gefum einstaklingunum sem við erum í samskiptum við tækifæri til að sanna sig. Börn eiga að njóta sérstakrar tillitssemi vegna þess að aldur þeirra og þroski getur valdið því að þau sýna ekki öðrum börnum og fullorðnum nægilega virðingu. Þetta á enn frekar við um börn sem búa við einhverjar hamlanir sem geta oft á tíðum komið í veg fyrir að þau sýni virðingu eða eiga í verulegum erfiðleikum með að læra að sýna virðingu.
Virðing fyrir hlutum er af sama stofni því að hlutir eru gerðir með hugviti manna og þeir kosta peninga sem er afrakstur vinnu einhvers eða einhverra. Virðing fyrir náttúrunni á að vera sjálfgefin, því að náttúran er forsenda lífs okkar.

Samvinna

Eitt sterkasta einkenni þess starfs sem unnið er í grunnskóla er samvinna og samstarf. Þess vegna er mikilvægt að allir ferlar og allur framgangur verkefna sé í samræmi við lýsingar eða ákvarðanir sem teknar hafa verið. Mikilvægt er að allir geti treyst því að hver og einn sinni hlutverki sínu eins vel og kostur er. Ekkert barn eða starfsmaður má hafa það á tilfinningunni að hann sé einn á báti heldur í hópi sem leysir verkefni sameiginlega. Samvinnan á sér margar hliðar og marga fleti. Kennarar vinna saman. Nemendur vinna sama. Kennarar og nemendur vinna saman. Kennarar og stjórnendur vinna með foreldrum. Allir starfsmenn vinna saman. Skólastjórnendur kappkosta að eiga samvinnu við alla aðila skólasamfélagsins um stjórnun og stefnumótun skólastarfsins.

Vellíðan

Markmið grunnskólans er að mennta og taka þátt í að ala upp einstaklinga og styrkja sjálfsmynd þeirra til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Vellíðan er forsenda alls náms í víðum skilningi, hvort sem það er til að bæta sjálfsmyndina eða hæfni og þekkingu. Við leggjum grunninn að vellíðan með því að sýna virðingu og reynum að tryggja góðar aðstæður allra í skólanum, jafnt barna sem starfsmanna með góðri samvinnu. Vellíðan er líka markmið í sjálfu sér því að við eigum að njóta bæði starfs og náms á meðan á því stendur. Þeim manni líður vel sem er sáttur við hlutskipti sitt, hvort sem hann er nemandi eða starfsmaður í skólanum.

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102