Denmark       United Kingdom

Leiklist í kennslu

Leiklist í kennslu

Löng hefð er fyrir leiklist í kennslu sem föstum hluta af kennsluháttum í Háteigsskóla. Haustið 2003 var skólinn valinn sem móðurskóli í leiklist í kennslu og allar götur síðan hefur Háteigsskóli verið í fararbroddi í notkun leiklistar í kennslu og leiklist sem listgrein.

Af hverju leiklist í námi?

Í skólasamfélaginu er leiklist notuð sem kennsluaðferð til að dýpka skilning nemenda á námsefninu, þeim sjálfum, öðrum og heiminum sem þeir lifa í. Leiklist er einnig notuð í forvörnum, t.d. í sambandi við einelti og ofbeldi eða önnur neikvæð málefni innan bekkjar eða skóla. Leiklist er oft valin þegar fjallað er um mismunandi trúarbrögð og síðast en ekki síst getur leiklist verið skemmtun sem allir hafa gaman af, hvort heldur sem þátttakendur eða áhorfendur.
Þegar aðferðir leiklistar eru notaðar í kennslu er, eins og í öðru skapandi skólastarfi, byggt á ákveðnu viðfangsefni, en ímyndunarafl og sköpunarhæfni nemenda fá að njóta sín. Kennari notar leikrænar leiðir til að ná settum markmiðum og koma til móts við sem flest greindarsvið.

Leiklist sem kennsluaðferð
Leiklist er ein af mörgum góðum kennsluaðferðum. Hún hjálpar nemendum til þess að setja sig í spor annarra, eflir sjálfstraust og sjálfstæðar ákvarðanatökur og síðast en ekki síst eiga þeir nemendur er eiga erfitt með bóklegt nám möguleika á að njóta sín. Leiklist er hópvinna, nemendur vinna saman í hópum og því þjálfar hún samskiptahæfni nemenda. Í leiklist í kennslu koma oft upp vandamál sem þarf að leysa og því þurfa nemendur að semja sín á milli og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Af þessu má vera ljóst að leiklist sem kennsluaðferð er góður kostur.

Leiklist sem kennslutæki
Börn búa yfir hæfni til að leika sér, setja sig í spor annarra og lifa sig inn í ímyndaðar aðstæður. Þau koma í skólann með þessa sérstöku hæfni sem kennari getur síðan viðhaldið og notað sem kennslufræðilegt afl. Nýjar heilarannsóknir (Gardner) sem gerðar voru í tengslum við mikilvægi tilfinningagreindar hafa sýnt fram á að tilfinningaleg reynsla getur stuðlað að námi hvort sem hún er fengin við raunverulegar aðstæður eða tilbúnar eins og í leikferli. Við notkun leiklistar er áhersla lögð á að nemendur byggi á eigin reynslu, lifi sig inn í ímyndað ferli og taki að sér þær skuldbindingar sem hlutverkið gerir til þeirra. Skilningur og nám á sér stað þegar nemandinn setur sig í hlutverk, kannar og skoðar mikilvæga þætti í mannlegum samskiptum, tekur ákvarðanir og dregur ályktanir. Hann byggir á eigin reynslu en eykur við þekkingu og reynslu á meðan hann er að takast á við vandamálin og finna lausnir. Að lokum er ferlið endurmetið og nemendur læra að greina og meta eigið framlag og annarra.

Hagur nemenda af leiklist:
- Eykur námsmöguleika út frá getu og hæfni.
- Eykur skilning á margbreytileika skólastarfs.
- Styrkir færni og tækni í að koma fram.
- Gefur öllum nemendum færi á að taka þátt.
- Hjálpar nemendum til þess að setja sig í spor annarra.
- Getur eflt sjálfstraust og sjálfstæðar ákvarðanir.
- Getur stuðlað að jákvæðri samvinnu og góðum bekkjaranda.

Hagur kennara:
- Að þróa skapandi kennsluhætti í tengslum við Aðalnámskrá grunnskóla.
- Að nota kennsluaðferð sem stuðlar að fjölbreyttum kennsluháttum.
- Samþætting námsgreina verður hluti af skólanámskrá bekkjarins.
- Að nota kennsluaðferð sem stuðlar að sjálfstæðum vinnubrögðum nemenda.

Hagur skólans:
- Leiklist skapar möguleika fyrir alla nemendur skólans að vinna jákvætt saman.
- Leiklist gefur nemendum tækifæri á að bera ábyrgð á námi sínu.
- Leiklist gefur þeim nemendum sem eiga erfitt með bóklegt nám möguleika á að njóta sín.

Hagur foreldra:
- Leiklist kallar á umræður heima fyrir.
- Leiklist kallar á aukið samstarf heimila og skóla.

Hagur samfélagsins:
- Leiklist endurspeglar samfélagið.
- Með hlutverkaleikjum geta nemendur sett sig í spor annarra.
- Leiklist býður upp á öruggt umhverfi til að takast á við tilfinningar og finna lausnir á vandamálum.
- Leiklist getur verið tæki til forvarnar.
- Aðferðir leiklistar stuðla markvisst að því að styrkja sjálfsmynd nemenda þannig að þeir taki ákvarðanir sem byggðar eru á eigin skoðunum og tilfinningum en ekki vegna áhrifa frá félögum.
- Leiklist er sameiginleg reynsla þátttakenda. Þannig læra nemendur að vinna með öðrum.

Greinargerð um gildi leikrænnar tjáningar.


               snigl
SNÍGL: Skapandi nám í gegnum leiklist er vinnuheiti á tilviksrannsókn (e. case study) Ásu Helgu Ragnardóttur og Rannveigar Þorkelsdóttur þar sem aðferðir eigindlegrar aðferðarfræði eru notaðar.

Markmiðið með rannsókninni er að skoða leiklist sem kennsluaðferð og hvort að kennsluaðferðin hafi áhrif á nám barna. Árangur nemenda bendir til að kennsluaðferðin festi námsefnið mjög vel í minni.. Færa má rök fyrir því að kennsluaðferðin henti vel í námi nýbúa vegna þess að í leiklist er fjölbreytni í fyrirrúmi sem á vel við þegar einstaklingar koma úr mismunandi umhverfi. (Sjá t.d. rannsókn John Somers frá 1996 “The Nature of Learning in Drama in Education: contemporary research”).


Sjá meðfylgjandi myndir er tengjast móðurskólaverkefninu leiklist í kennslu.

Hér er listi yfir þau verkefni sem eru til í skólanum.

Einnig eru hér dæmi úr leiklistarkennslu í 6. bekk,

verkefni úr Benjamíni dúfu,

verkefni úr þjóðsögunni um selshaminn,

verkefni tengd kristnitökunni árið 1000 og Þrymskviðu,

leikferli við skáldsöguna Leigjandann eftir Svövu Jakobsdóttur og

Sagan um Tuma þumal.

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102