Denmark       United Kingdom

Vinátta

Vinátta

Hvað er Mentorverkefnið Vinátta?

Mentorverkefnið er byggt á alþjóðlegri fyrirmynd en það sem er næst okkur er starfrækt í Malmö í Svíþjóð. Þar hófst verkefnið árið 1997 sem samstarf milli háskólans þar og innflytjendastofnunar og tveggja grunnskóla í Malmö.

Mentorverkefnið Vinátta hóf göngu sína haustið 2001 sem samstarfsverkefni Velferðarsjóðs barna á Íslandi, Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og tveggja grunnskóla í Reykjavík. Í ár hefur verkefnið aldrei verið stærra og hafa Háskólinn á Akureyri og Kvennaskólinn í Reykjavík ásamt átta grunnskólum bæst við. Felst verkefnið í því að háskóla- og framhaldsskólanemar verja þremur stundum á viku yfir skólaárið í samveru með einu grunnskólabarni á aldrinum 7-12 ára. Kjarni mentorverkefnisins Vináttu er að háskóla- og framhaldsskólanemar veiti grunnskólabörnum stuðning og hvatningu. Áhersla er lögð á gagnkvæman ávinning og hagsmuni samfélagsins með því að börn og ungmenni kynnist og læri af aðstæðum hvers annars. Nemendur háskóla og framhaldsskóla fá tækifæri til að vera fyrirmynd í lífi grunnskólabarns og börnin fá tækifæri að mynda tengsl við þroskaðan, fullorðinn aðila fyrir utan fjölskyldu sína.


Markmiðið verkefnisins er m.a. að:

- skapa persónulegt samband milli barns og fullorðins einstaklings sem báðir njóti góðs af
- efla félagsþroska og sjálfsmynd barnsins
- gefa háskóla- og framhaldsskólanemum færi á að væta þekkingu sína og reynslu og setja hana í samhengi við námið.


Frekari upplýsingar um Mentor-verkefnið

Verkefnið hefst á sameiginlegum haustfagnaði þar sem börnin og fjölskyldur þeirra ásamt Mentorum og umsjónarmönnum hittast öll saman. Verkefninu lýkur einnig með sameiginlegum vorfagnaði.

Foreldrar sækja formlega um Mentor. Ekki er hægt að verða við öllum umsóknum og foreldrum því bent á að sækja um aftur að ári. Allir þátttakendur, börn, foreldrar og Mentorar fara í viðtöl til umsjónarmanns verkefnisins og hann velur síðan saman barn og Mentor.

Samstarf barna og Mentora fer fram í samráði við foreldrana. Byrjað er á að byggja upp traust milli barns og Mentors og síðan farið í ýmis félagsleg verkefni þar sem áhugamál barnanna ráða ferðinni að mestu. Margt er hægt að gera og sem dæmi má nefna gönguferðir, heimsóknir í íþróttamiðstöðvar, leiki, tölvuver söfn, tónleika, bíó eða kaffihús þar sem áhugamál barnsins eru rædd og tengslin styrkt. Í Svíþjóð hefur sameiginleg matargerð og borðhald reynst árangursrík aðferð til að styrkja tengslin á milli Mentora, barna og fjölskyldna þeirra.


Hlutir sem Mentorar og börn geta gert saman:

Skautar, línuskautar o.fl.
Íþróttamiðstöðvar (farið t.d. á leiki)
Badminton
Boltaleikir - fótbolti, handbolti o.fl.
Bakstur og matargerð
Grímugerð
Skapandi starf, textíl., málun o.fl.
Kvikmyndahús, leikhús, tónleikar o.fl.
Nauthólsvík, Öskjuhlíð, Húsdýragarður, Heiðmörk, Elliðaárdalur, Viðey og önnur útivistarsvæði
Farið á hestbak - hestaleigur
Söfn, bókasöfn, náttúrugripasafn, þjóðminjar, listir o.fl.
Göngutúrar - höfnin, garðar, húsaskoðun, leikvellir, fjaran o.fl.,
Fara í sund
Fara í háskólann
Fara á kaffihús
Skreppa í bæinn
Borða saman á heimili barnsins
Spila saman tónlist, leika saman, púsla, tefla, syngja, tölvuleikir, sinna heimanámi og spjalla saman. Taka þátt í einhverju með barninu í skólanum.

Í Svíþjóð er algengast að Mentorar og börn séu saman úti í nágrenni skóla og heimila.

Algengast er að börn og Mentorar hittist heima hjá barninu eða heima hjá sér.


Það sem umsjónarmenn hafa að leiðarljósi við að para saman börn og Mentora.

- Stelpur fá kvenkyns Mentor.
- Karlkyns Mentor með elstu strákunum.
- Ef foreldrar óska sérstaklega eftir karlkyns Mentor verður reynt að bregðast við því
- Byrjað er að para saman börn og Mentora þar sem kennarar/námsráðgjafar telja þörfina brýnasta. Þá eru valdir þeir Mentorar sem mesta reynslu hafa af starfi með börnum. Ganga þarf úr skugga um að Mentorinn geti bæði hlustað á barn og sett því mörk.
- Af hagnýtum ástæðum er reynt að sjá til þess að Mentorar búi ekki of langt frá barni eða þeim skóla sem barnið gengur í. Því geta Mentorar óskað eftir ákveðnu hverfi til að vinna í.
- Barn með dýraofnæmi fær ekki Mentor sem á gæludýr.
- Reynt er að para saman börn og Mentora eftir sameiginlegum áhugamálum. Til dæmis barn og Mentor með mikinn fótboltaáhuga. Hins vegar er reynt að para saman Mentor og barn sem búa yfir ólíkum áhugamálum. Til dæmis barn sem hreyfir sig lítið fær Mentor sem er mikið fyrir að hreyfa sig.
- Barn úr stórum systkinahópi fær Mentor sem er barnlaus.
- Einbirni fær Mentor með stóra fjölskyldu í kringum sig.
- Það hefur sýnt sig að oft er erfitt að mynda tengsl við feimin og hlédræg börn. Því er mikilvægt að velja Mentor sem er ófeiminn en heldur ekki svo framhleypinn að það hræði barnið.

Nánari upplýsingar eru á heimasíðu verkefnisins.

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102