Skip to content

Íslenskuverðlaun unga fólksins

Íslenskuverðlaun unga fólksins voru veitt á degi íslenskrar tungu við hátíðlega athöfn í Hörpu. Markmiðið með verðlaununum er að auka áhuga ungs fólks á íslenskri tungu og hvetja það til framfara í tjáningu talaðs máls og ritaðs.

Þau eru veitt þeim nemendum sem hafa sýnt færni, frumleika og sköpunargleði við að tjá sig á íslensku, í ræðu og/eða riti. Þeim sem hafa sýnt leikni í að nota tungumálið sem samskiptatæki, ýmist í hagnýtu eða listrænu skyni, t.d. á sviði samræðulistar eða ljóðrænnar framsetningar. Verðlaunin voru nú afhent í þrettánda sinn og verndari verðlaunanna er frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Anna Soffía Hauksdóttir, nemandi í 10. bekk, hlaut verðlaunin í ár. Eftirfarandi er umsögn Háteigsskóla um Önnu Soffíu.

Anna Soffía er með mjög gott vald á íslenskri tungu. Hún býr yfir fjölbreyttum og ríkulegum orðaforða og getur með skýrum hætti tjáð sig hvort sem er í rituðu eða mæltu máli. Hún hefur auk þess mikinn og góðan skilning á málfræðilegum rótum tungumálsins og á því auðvelt með að tileinka sér nýja þekkingu á því sviði. Anna Soffía er vel lesin, veigrar sér ekki við að lesa krefjandi bókmenntir sem reyna á skilning og túlkun og á auðvelt með að greina og kryfja það sem hún les.  Anna Soffía er framúrskarandi nemandi í íslensku.