Skip to content

Kennsluhættir

Virðing  Samvinna  Vellíðan

 

Í Háteigskóla er Nám fyrir alla þar sem borin er virðing fyrir fjölbreytileika, mismunandi þörfum, hæfileikum og einkennum sérhvers nemanda. Lögð er áhersla á teymiskennslu þar sem sameiginleg ábyrgð kennara er á sérhverjum nemendahópi.

Kynnumst nemendum okkar

 • Við leggjum okkur fram við að þekkja styrkleika, veikleika og áhugamál nemenda okkar til þess að geta stutt betur við nám þeirra.

 • Við látum okkur varða hvað skiptir nemendur okkar máli.

 • Við leitumst eftir því að vita hvernig sérhver nemandi lærir best ásamt því að hvetja hann til að prófa fjölbreyttar aðferðir til náms.

 • Við komum til móts við ólíkar þarfir í nemendahópnum okkar.

Samskipti

Góð samskipti eru forsenda vellíðunar og virkni nemenda í skólastarfi. Í Háteigsskóla er lögð rík áhersla á jákvæð og uppbyggjandi samskipti.

 • Við reynumst hvert öðru vel.

 • Við sýnum hvert öðru virðingu og kurteisi.

 • Við sýnum samkennd.

 • Við tökum tillit.

 • Við viðurkennum margbreytileikann hjá hverju og einu okkar.

Mikilvægi jákvæðra samskipta eru samofin öllu skólastarfi.

 • Vikulegir bekkjarfundir.

 • Bekkjarsáttmáli.

 • Lögð er áhersla á teymisvinnu nemenda, lærdómsfélaga og samráðsfélaga.

 • Unnið er markvisst með félags- tilfinningahæfni með því að þjálfa nemendur í að tjá skoðanir sínar, hlusta á skoðanir annrra og virða þær.

 • Allir nemendur fá tækifæri til þess að vera leiðtogar í gegnum hin ýmsu hlutverk í daglegu skólastarfi.

 • Nemendur er þjálfaðir í að leysa ágreiningsmál og hrósa á uppbyggilegan hátt.

 

Leiðsagnarnám

Í Aðalnámskrá grunnskóla (2011) segir að leggja skuli áherslu á leiðsagnarmat (formative assesment)  þar sem nemendur velta reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða hvert skuli stefna. Segja má að hugmdyndafræði leiðsagnarnáms sé rauði þráðurinn í gegnum Aðalnámskrá grunnskóla.   Shirley Clarke er enskur sérfræðingur sem hefur skrifað fjölda bóka um leiðsagnarmat eða leiðsagnarnám  (assesment for learning)  og haldið erindi og námskeið viða um heim, m.a. hér á landi. Aðferðirnar byggir hún á niðurstöðum virtra rannsókna en þær eru þróaðar í samstarfi við starfandi kennara. Leiðsagnarnám hefur verið skilgreint á ýmsa vegu, en út frá áherslum Clarke má í stuttu máli segja að leiðsagnarnám sé námsmenning þar sem megináherslan er á nám nemenda, fremur en kennslu kennarans.. Skólar sem fylgja aðferðafræðinni hafa náð mjög góðum framförum í námi. Það er markmið okkar að efla leiðsagnarnám í skólanum þar sem þunginn er nám nemandans fremur en matið.

Eftirtalin hugtök einkenna skólasamfélag þar sem leiðsagnarnám er haft að leiðarljósi:

 

 •  Hugarfar: Mikil áhersla er lögð á að efla vaxtarhugarfar ( growth mindset) nemenda gagnvart námi. Þegar nemendur hafa vaxtarhugarfar þá vita þeir að framfarir nást með þrautseigju.

 

 •  Mistök: Mistök skapa tækifæri til að læra. Enginn þarf að skammast sín fyrir að gera mistök, því allir mestu snillingar heimsins hafa gert fjölda mistaka og lært af þeim. Ef nemandinn þarf ekkert að hafa fyrir náminu, þá er verkefnið sennilega of auðvelt og nemandinn lærir lítið eða ekkert.

 

 • Heilinn: Líkt og vöðvar, þá eflist heilinn þegar hann er notaður.

 •  Markmið: Nemendur eru meðvitaðir um hvað þeir eiga að læra í hverri kennslustund, ekki bara hvað þeir eiga að gera. Þeir stefna að ákveðnu markmiði og vita hvar þeir eru staddir á leið sinni þangað og hvenær þeir hafa náð markmiðinu.

 

 • Viðmið: Skýr viðmið um árangur eru skilgreind í upphafi. Nemendur er meðvitaður um til hvers er ætlast og  hvað þeir þurfa að gera til þess á ná árangri.

 

 • Vinnubrögð: Nemendur vinna á fjölbreyttan og skapandi hátt og hafa ýmsa möguleika til að læra og sýna hvaða hæfni þeir hafa tileinkað sé. Þeir vinna ýmist einir, tveir og tveir eða í stærri hópum. Þeir skipta reglulega um samstarfsfélaga. Áhersla er lögð á meðvitund nemenda um eigið nám og að þeir beri ábyrgð á námi sínu í samræmi við þroska.

 

 • Endurgjöf: Kennarinn notar endurgjöf til þess að styðja nemendur í átt að námsmarkmiðum sínum. Í kennslustundum bendir kennarinn nemendunum reglulega á hvernig þeim gengur að ná markmiðum sínum og hvað þeir geta gert til að gera enn betur. Þannig geta nemendurnir strax nýtt endurgjöfina. Stundum getur endurgjöfin líka verið skrifleg Meginmarkmið með endurgjöf er alltaf að hjálpa nemendum til að ná markmiðum sínum. Nemendur gefa einnig hver öðrum endurgjöf út frá þeim viðmiðum sem hafa verið skilgreind, og nemendur meta sjálfir eigin vinnu. Áhersla er lögð á að kennarar nýti sér einnig þá endurgjöf sem þeir fá frá nemendum.

 

 • Námsfélagar/samráðsfélagar: Tveir og tveir nemendur ræða saman, ígrunda, svara saman spurningum, leysa verkefni  eða skiptast á hugmyndum í afmarkaðan tíma. Það hjápar nemendum að orða hugsanir sínar og þeir læra hver af öðrum. Nemendur skipta reglulega um námsfélaga/samráðsfélaga.

 

 • Samræður: Engar hendur upp, allir með.  Kennarinn varpar reglulega fram spurningum, athugasemdum eða hugmyndum til að vekja áhuga og forvitni nemenda. Í stað þess að biðja nemendur um að rétta upp hönd dregur hann nafn þess sem segir frá, eftir að allir hafa fengið tíma til að hugsa. Þetta er gert svo allir  í hópnum glími við spurninguna sem lögð er fyrir en sumir bíði ekki bara eftir því að þeir sömu svari alltaf fyrir þá.

Menntastefna Reykjavíkurborgar

 

 • Meginmarkmið stefnunnar er að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.

 • Unnið verður að því að öll börn hafi sterka sjálfsmynd, trú á eigin getu og nái árangri. Börnin lesi sér til gagns og gamans, afli sér þekkingar og öðlist skilning á samfélagi og náttúru. Þau sýni frumkvæði, skapandi og gagnrýna hugsun og tileinki sér heilbrigðan lífsstíl.

 • Menntastefnan byggir á fimm grundvallarþáttum: félagsfærni, sjálfseflingu, læsi, sköpun og heilbrigði.

  • Félagsfærni: Hæfni til að eiga árangursrík samskipti við aðra og viljann til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi sitt og samfélag.

  • Sjálfsefling: Hæfni til að hafa trú á eigin getu, læri að þekkja styrkleika sína og veikleika ásamt því að setja sér markmið og fylgja þeim eftir

  • Læsi: Hæfni til að geta lesið, skilið, túlkað og unnið á gagnrýnin hátt með ritað mál, orð, tölur, myndir og tákn. Hugtakið vísar einnig í til læsis í viðtækri merkingu. Hæfnin til að lesa í umhverfið, hegðun og aðstæður.

  • Sköpun: Fjölbreyttar áskoranir sem byggjast á forvitni, skapandi og gagnrýnni hugsun ásamt frumkvæði og leikni.

  • Heilbrigði: HÆfni til að tileinka sér heilbrigðar lífs- og neysluvenjur, líkamlega færni, kynheilbrigði og góða andlega og félagsleg vellíðan.

Lesa má nánar um menntastefnu Reykjavíkurborgar hér: Menntastefna