Skip to content

Námsmat

Námsmatskvarði HáteigsskólaMarkmið námsmats er að veita upplýsingar um árangur nemenda sem nýtist kennurum við að stuðla að frekari framförum og örvar nemendur til frekari dáða. Námsmat á að veita nemendum, foreldrum þeirra og kennurum upplýsingar um námsgengi sem á að hafa að leiðarljósi við skipulagningu náms. Matsaðferðir eru fjölbreyttar í samræmi við hæfniviðmið. Allir þættir náms eru metnir þ.e þekking, leikni og hæfni. Lykilhæfni sérhvers nemanda er samofin öllu mati. Lykilhæfni felur í sér sjálfsvitund og samskiptahæfni nemenda til þess að taka virkan þátt í lýðræðislegu samfélagi ásamt getu til að nýta sér stykleika sína til áframhaldandi náms.

Í samræmi við Aðalnámskrá grunnskóla eru námsmatsverkefni fjölbreytt: Munnleg verkefni, verkleg og skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópaverkefni og próf af ýmsu tagi.

Námsmat fer fram jafnt og þétt á námstímanum þar sem nemendur eru meðvitaðir um hvaða viðmið eru lögð til grundvallar í matinu hverju sinni.  Kennarar fylla inn á hæfnikort nemenda jafn óðum yfir námstímann í takt við leiðsagnarnám og símat. Kennarar í 1.-7. bekk vinna út frá hæfniviðmiðum. Kennarar í 8.-10. bekk vinna út frá matsviðmiðum og hæfniviðmiðum.

 

Að vori fá nemendur 4., 7. og 10. bekkjar útprentað námsmat með bókstöfum. Annað námsmat verður rafrænt.

 

A Fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni. A þýðir þannig ekki að nemandinn hafi getað t.d. 80% af verkefninu eða prófinu heldur að hann hafi getað leyst þau verkefni eða prófhluta sem kölluðu á flóknari hæfni en hin.

B+ Sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+

B Matsviðmið í B eru byggð á hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og framsetning þeirra er með þeim hætti, að gera má ráð fyrir að þorri nemenda nái þeirri hæfni sem þar er tilgreind.

C+ Sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C +

C Fá þeir sem ekki standast fyllilega þær kröfur sem gerðar eru í B viðmiðum.

D Ekki eru sett viðmið fyrir D, því sá vitnisburður er notaður þegar nemandi uppfyllir ekki  kröfur sem gerðar eru í C viðmiðum. Skóli gerir þá sérstaka grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda.

 

 

Nemendur í 1.-3., 5.-6. og 8.-9. bekk fá vitnisburð með upplýsingum um framvindu sem vistaður er í námsmöppu inn á Mentor

 

Góð framvinda þýðir að nemandi sýnir framfarir í námi og fylgir þeim viðmiðum sem unnið er með. Hæfnikort nemanda sýnir að hann hafi náð flestum viðmiðum eða sé á góðri leið með þau.

 

Hæg framvinda þýðir að nemandi fylgir ekki eftir þeim viðmiðum sem unnið er eftir. Hæg framvinda getur þýtt að nemandi sé ekki að ná aldurssvarandi viðmiðum og ýmsar ástæður geta legið þar að baki svo sem námsörðugleikar, slök ástundun o.s.frv. Nemandi getur verið í góðri framför miðað við fyrri hæfni t.d. aukið lestarhæfni sína og er þá í góðri framför en á þó eitthvað í land með að ná aldurssvarandi hæfniviðmiðum. Hæfnikort nemanda sýnir að hann þarfnast þjálfunar í veigamiklum þáttum.

 

Í hættu að ná ekki lágmarkshæfni. Nemandi sem fær þetta tákn er ekki að ná að tileinka sér þau hæfniviðmið sem unnið er með. Ýmsar skýringar geti legið þar að baka og má nefna töluverða námsörðuleika eða mjög slaka ástundun. Ef engar breytingar eiga sér stað í námsframvindu nemanda er hætta á að nemandi ljúki stigi með einkunnina D. Táknið er ekki gefið nemendum í 1. bekk.

 

Við bendum einnig á síðu Menntamálastofnunar Aðalnámskrá