Denmark       United Kingdom

Ef út af ber

Ef út af ber

Samskipti, agi og umgengni

Umsjónarkennarar fylgjast með námi og þroska allra nemenda sem þeir hafa umsjón með. Þeir leiðbeina nemendum í námi og mati á því, eiga samvinnu við foreldra og forráðamenn eftir þörfum og hlúa að samskiptum meðal nemenda.
Þeir reyna að stuðla að góðum bekkjaranda í bekkjum sínum, réttlátum vinnu- og umgengnisreglum og hvetjandi námsumhverfi. Þeir aðstoða nemendur og ráðleggja þeim um vinnulag, námsval og persónuleg mál. Þeir tryggja að upplýsingar um nemendur berist öllum kennurum sem málið varða.

Meðferð agamála
Umsjónarkennari tekur á agamálum inni í bekk. Hann ræðir almennt við nemendahópinn til þess að gera hann samábyrgan fyrir þeim heildarbrag sem ríkir í bekknum.

Ef greinilegt er að einstaklingar eru ábyrgir fyrir vandanum ræðir hann við hvern og einn einslega. Hann reynir að fá nemandann til þess að láta af hegðun sinni og bendir honum á hvaða afleiðingar hegðun hans hefur fyrir bekkjarsystkinin.

Láti nemandinn ekki skipast við áminningar, þá leitar umsjónarkennarinn til foreldra/ forráðamanna með vandann og óskar eftir því að þeir taki þátt í lausn hans.

Beri þetta ekki árangur tilkynnir umsjónarkennari foreldrum eða forráðamönnum það og lætur skólastjóra, aðstoðarskólastjóra eða fulltrúa skólastjóra vita af vandanum. Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri eða fulltrúi skólastjóra ræðir við nemandann og hvetur hann til að bæta hegðun sína.

Láti nemandinn ekki skipast við áminningar skólastjórnenda, kalla þeir foreldra á sinn fund ásamt umsjónarkennara og leiðir þeim fyrir sjónir hversu alvarlegur vandinn er. Hann hvetur foreldra til að leita til félagsráðgjafa skólans eða sálfræðings. Ef um algjört ófremdarástand er að ræða og nemandinn kemur í veg fyrir eðlilegt starf í skólanum getur skólastjóri vísað honum úr skóla tímabundið á meðan verið er að vinna í málum hans. Jafnframt tilkynnir hann Menntasviði og foreldrum/forráðamönnum um ákvörðun sína.

Starfsmenn skólans móta sameiginlega það starfs- og námsumhverfi sem ríkir innan veggja skólans. Þeim ber því skylda til að fylgjast með öllum nemendum og tilkynna óæskilega hegðun til umsjónarkennara eða skólastjórnenda.
Umsjónarkennarar ræða aga- og umgengnisvenjur við nemendur sína svo oft sem þurfa þykir. Einnig gera umsjónarkennarar á unglingastigi nemendum grein fyrir því á hverju hausti hvernig unnið er með vandamál tengd ástundun og hegðun.

Sjá ennfremur verklagsreglur um úrvinnslu agamála, samþykktar af Mennta- og velferðarsviði Reykjavíkur, ágúst 2009.

 


 

EINELTI
Í Háteigsskóla leggjum við áherslu á að öllum nemendum líði vel og reynum því að vinna gegn einelti. Eineltiskannanir eru lagðar fyrir í öllum bekkjum á hverjum vetri. Ef eineltismál koma upp er leitast við að vinna úr þeim málum á farsælan hátt. Sjá eineltisáætlun skólans.

 


 

ÁFÖLL
Áföll og sorg geta verið af ýmsum toga og nauðsynlegt fyrir alla að vita hvað við teljum til áfalla og sorgar:
Dauðsfall
Aðskilnaður (langvarandi eða tímabundinn)
Skilnaður foreldra
Alvarlegir og/eða langvarandi sjúkdómar
Vímuefnavandi í fjölskyldu
Ofbeldi
Slys sem valda líkamstjóni
Kynferðisleg misnotkun
Atvinnuleysi foreldra
Bráður fjárhagsvandi
Búferlaflutningar
Breytingar á vinahópi
Fæðing systkina
Breytt líkamsímynd (t.d. að fitna)
Hvort sem okkur finnst áföllin stór eða smá er nauðsynlegt að veita stuðning. Þar skiptir miklu máli að foreldrar komi upplýsingum um áföll til skólans.

Áfallaáætlun Háteigsskóla

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102