Denmark       United Kingdom

Örsögur á Ólafsdögum

Á Ólafsdögum 22. - 24. apríl 2013 gerðu nemendur í 7. - 10. bekk örsögur. Þema Ólafsdaga var Biophilia Bjarkar og þar er fjallað mikið um tunglið. Og margt gerist í tunglsljósinu, eins og hryllings- og draugasögurnar hér á eftir bera með sér. Nemendur fengu 40 mínútur til að semja sögurnar og margar góðar litu dagsins ljós:

Hún var draugur
Árið 1970 dó lítil telpa. Enginn veit hvernig, en faðir hennar varð svo miður sín að hann drap sig, bara til að vera með henni. Eftir nokkur ár giftust móðir telpunnar og besti vinur pabbans. Eitt kvöld varð konan brjáluð og fór að tala um dóttur sína og fleiri dætur og gamla eiginmenn. Núverandi eiginmaður hennar varð hræddur - um hvað var hún að tala - hafði hún drepið þau öll? Maðurinn reyndi að flýja en varð of seinn - hann dó. Eftir nokkur ár eignaðist hún nýja fjölskyldu...
(Sigurlaug, 9. bekk)

Draugasaga
Stelpan sem talað er um í sögunni hefur séð drauga. Drauga sem eru góðir og vernda. Draugar sem fylgja henni alls staðar. Eitt sinn er hún var á gangi hitti hún drauginn "sinn". Að sjálfsögðu brá henni, þar sem hún var nú á almannafæri. En allavegana, þau spjölluðu aðeins saman þangað til draugurinn sagðist elska hana og spurði hana hvort hún vildi giftast sér. Hún sagði já og þau voru hamingjusöm að eilífu. Bókstaflega.
(Kolbrún Emma, 9. bekk)

Kvenmaðurinn á bjöllunni
Kjartan B. ákvað að eyða jólunum uppi í sumarbústað. Hann ákvað að bjóða dóttur sinni með. Hún kom þó samdægurs vegna vinnu. Vont var í veðri kvöldið sem hún átti leið upp í bústaðinn. Arnheiður, dóttir Kjartans B., keyrði á bjöllu og átti í erfiðleikum að keyra að bústaðnum. Rétt áður en hún var komin fannst henni hún hafa keyrt yfir eitthvað. Hún fór út en fann ekkert nema nokkur fótspor. Hún hélt áfram að sumarbústaðnum. Þegar hún kom inn sá hún föður sinn sitjandi í stofunni. Það blæddi úr honum og hann var með hjólfar á bringunni. Hann kallaði á hana.
(Jón Freyr 8. bekk og Kjartan 9. bekk)

Blóðug tár
Þú gengur rólega í átt að glugganum þar sem gardínurnar fjúka til og frá. Þar stendur lítið barn og grætur blóðugum tárum. Þú rúllar upp augunum eftir því og kemst að því að þetta barn ert þú og það rifjast upp hvernig þú varst skilin eftir á glámbekk. Dauðinn bað þín. Nú þarft þú ekki að lifa í skugganum. Þú hefur hlotið frið. Þú ert dáin.
(Jóna Gréta, 8. bekk)

Saman
Fyrir stuttu síðan dó konan mín úr alvarlegum sjúkdómi. Það versta var að við áttum von á barni. Við vorum svo hamingjusöm. Af hverju er lífið erfitt og ósanngjarnt? Hún var góð kona, fullkomin í mínum augum. Ég gat ekki höndlað að hún væri dáin, svo að ég drap sjálfan mig. Nú göngum við bæði um húsið okkar og pössum að allt sé á sínum stað og að enginn komi nálægt húsinu okkar.
(Camila Ramos, 10. bekk)

Síðustu augun
Ég vakna í ókunnu rúmi. Ég sný mér við og sé tvö skærblá augu. Strákurinn sem á augun er dauður - stór, rauður pollur lekur úr höfði hans. Ég hleyp heim.
Næsta dag eftir skóla er ég enn að hugsa um þetta. Ég labba eftir ganginum og fer inn á bað. Ég brotna niður og get ekki hætt að gráta. Einhver kemur inn í baðherbergið. Ég reyni að hafa hljótt. Andardráttur og síðan fótatak. Það síðasta sem ég sé eru skærbláu augun.
(Drífa, 10. bekk)

Fallið
Móðir og dóttir bjuggu eitt sinn í kofa einum. En dóttirin var gjörn á að týnast og í grámuskulegu veðri varð móðirin einkar áhyggjufull og lagði af stað að leita hennar. En hún féll sjálf niður klett og dó. Yfirkomin af sorg lokkar hún ferðamenn niður klettinn í von um að finna týndu dóttur sína.
(Sunneva, 9. bekk)

Blóðþorsti
Maður nokkur var á gangi rétt fyrir miðnætti. Heyrir hann hvíslað rétt hjá honum í húsasundi:

"Ekki er dagur allur
lengi hef ég gengið aftur
margan hef ég manninn myrt
blóðið sogið og hálsinn kyrkt.
Nýr á hverjum degi, heldur sálinn' í lagi.
Blóðþorstinn mig kvelur,
á meðan sálin í mér dvelur."

Finnur hann hvernig allt í einu lífið fjarar út.
(Eysteinn, 9. bekk)

Dansi, dansi dúkkan mín
Ég ligg í herberginu í rúminu mínu. Ég á erfitt með að sofna þegar ég heyri lágværan söng. Ég heyri í kvenmannsrödd syngja, "Dansi, dansi dúkkan mín". Ég verð hrædd við þetta hljóð og ákveð að fara fram. Þegar ég labba fram sé ég mömmu mína liggjandi á stofugólfinu útataða í blóði og syngjandi, "Dansi, dansi dúkkan mín". Síðan sé ég pabba minn standandi með hníf, sem er skrýtið af því hann dó þegar ég var aðeins þriggja ára. Ég hafði bara séð myndir af honum. Síðan sagði hann, "Dagarnir þínir eru taldir".

Spegilmynd
Katla var að labba heim frá vinkonu sinni þegar hún sá litla stelpu sitjandi á bekk fyrir framan eitt húsanna. Það var miðnætti og tunglið skein á hvíta húð stelpunnar, það glampaði á hana og hún skalf úr kulda. Þegar Katla ætlaði að spyrja stelpuna hvort allt væri í lagi, þá hvarf hún. Þá vaknaði Katla sveitt og áttaði sig á að þetta hefði allt bara verið draumur. Hún fór fram úr rúminu, leit í spegilinn, en hún sá ekki sjálfa sig, heldur litlu stelpuna.
(Hallbjörg, 9. bekk)

Stúlkan með lampann
Kvöld eitt í húsi einu bjó fjölskylda. Þau höfðu átt heima þar í eitt ár það kvöld og ákváðu þá að hafa veislu til að fagna því. Þegar drengurinn ætlaði upp að sofa, tók hann eftir silfurlitaðri hurð. Hann ákvað að kíkja hvað þar væri. Þegar hann kom inn tók hann eftir lítilli stúlku sem endurtók, "Ég er stúlkan með lampann!" Drengurinn hljóp inn í herbergi. Þegar hann vaknaði næsta dag lá hann dáinn á gólfinu með lampa í hendinni og draugur hans við hlið hans og sagði, "Ég er drengurinn með lampann!"
(Valgerður, 8. bekk)

- Sögurnar þrjár hér á eftir þótti dómnefnd bestar. -

Ástarstunga
Eitt sinn voru stúlka og piltur á gangi meðfram á einni. Tunglið var fullt og tunglskinið lýsti upp svartan himininn. Stúlkunni var bylt við er hún fann kaldan straum fara fram hjá sér og strjúka öxl hennar. Er hún leit við var pilturinn horfinn á braut. Ennþá fann hún þennan straum og hljóp heim skelfingu lostin. Er hún kom heim lá pilturinn í rúminu með dimm og köld augu en undarlega blíð innst inni. Hún fann hvernig hann vafði sig utan um hana. Skyndilega fann hún eitthvað kalt og beitt smjúga gegnum líkama sinn. Höfðu þau þá stungist af einum og sama hnífnum og hnigu niður í eitt. Er þau gengu aftur var alltaf talað um þau sem parið sem dó ástarstungu.
(Nína Kolbrún, 10. bekk)

Óvissa
Ég veit ekki hvað ég á að gera. Það eina sem ég veit er að ég þarf að halda áfram að hlaupa eins hratt og ég mögulega get. Ég sá hann ekki en ég vissi að hann væri þarna og hann ætlaði að ná mér. ég sé bara trén og tunglið á svörtum himninum. Ég finn ekki lengur fyrir fótunum, ég hleyp svo hratt. Ég er orðin svo þreytt. Ég má ekki vara þreytt. Hvað gerist ef ég hætti að hlaupa og lít við?
Nú stend ég kyrr og bíð eftir honum, ég þarf að sjá hann. Allt í einu finn ég eitthvað koma við mig, eitthvað strýkur höndunum upp og niður bakið mitt. Núna eru hendurnar komnar að hálsinum mínum. Ennþá sé ég ekki neinn, en hægt fara trén og tunglið að hverfa. Allt er svart.
(Birta, 10. bekk)

Kertið (verðlaunasagan)
Einu sinni voru hjón. Þau höfðu átt langa æfi saman. Þau hétu Jón og Sigrún. Konan var orðin svo þreytt á karlinum að á endanum drap hún hann með kerti þegar þau ætluðu að hafa notalega stund saman.
Dagarnir liðu og konan hélt lífi sínu áfram.
Seinna á kvöldin þegar konan var að fara að sofa kviknaði á kertinu og það mátti heyra röddina hans hvísla, "Sigrún"...
(Auður, 8. bekk)

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102