Skip to content

Sáttmáli um skólasamfélag Háteigsskóla

Skólinn er bæði vinnustaður og samfélag þriggja aðila; nemenda, starfsfólks skólans og foreldra. Allir eiga kröfu á réttlæti og viðurkenningu fyrir það sem vel er gert. Leitast skal við að skapa góðan starfsanda og leysa mál friðsamlega og þannig að mannréttindi allra séu í heiðri höfð.

Í skólanum gilda almennar samskipta- og umgengnisvenjur, sem byggjast á umburðarlyndi, lýðræðis­legu sam­starfi og gagnkvæmri virðingu þeirra sem mynda skólasamfélagið, og reglur sem settar eru í skólanum, skólareglur.

Nemendur eiga þess kost að leita til umsjónarkennara, skólastjórnenda eða félagsráðgjafa sem gætir fyllsta trúnaðar við þá vegna hugsanlegra vandamála heima fyrir eða í skóla.

Mikilvægt er að upplýsingar sem varða nemendur, starfsfólk skólans og foreldra og hafa hugsanlega áhrif á skólastarfið berist hratt og vel. Sérstök áhersla skal lögð á upplýsingaskyldu heimila gagnvart skóla­stjórnendum t.d. ef breytingar verða á heimilum sem áhrif hafa á líf nemenda og þar með skólastarfið.

Undir sáttmálann falla skólareglur, reglur til að leiðbeina foreldrum, öryggisreglur og bekkjarreglur sem hver bekkur semur með umsjónarkennara sínum á hverju hausti.

Skólareglur

 1. Allir sýna kurteisi og virðingu innan skólans sem utan og koma fram af háttvísi.
 2. Allir sýna góða umgengni og ganga hljóðlega um skóla­nn.
 3. Allir hjálpast að og koma í veg fyrir að einhverjir verði útundan í leik eða námi.
 4. Allir eru með hollan mat í nesti.
 5. Allir mæta stundvíslega í skólann.
Til leiðbeiningar fyrir foreldra
 1. Fjarvistir vegna veikinda og af öðrum orsökum á að tilkynna eins fljótt og unnt er.
 2. Séu nemendur lengur í skóla en þrjár kennslustundir samfleytt skulu þeir hafa með sér nesti. Nánari útfærsla á skólareglu fjögur er unnin í samráði við foreldra á hverju stigi fyrir sig.
 3. Brot á sáttmála og skólareglum getur þýtt alvarlega áminningu frá kennara eða skólastjórnendum. Ef brot eru endurtekin verða forráðamenn látnir vita og gripið til viðeigandi ráðstafana í samræmi við úrvinnsluferli skólans.
 4. Allir umgangast farsíma sína þannig að góður vinnufriður ríki í skólanum. Nemendum á unglingastigi (8.-10. bekkur) er óheimilt að hafa kveikt á farsímum í kennslustundum. Nemendum á yngsta stigi og miðstigi (1.-7. bekkur) er óheimilt að hafa kveikt á farsímum á skólatíma.
Öryggisreglur
 1. Nemendur eru á skólavelli í stundahléum og fara ekki út af honum nema með leyfi og skulu þá sýna fyllstu háttprýði. (Nemendur á unglingastigi hafa heimild til að fara af skólavellinum í hléum vegna aldurs síns og þroska.)
 2. Nemendur fara vel með muni skólans og þeir skulu gæta þess að skemma ekki bækur, hús­­búnað eða kennslutæki.
 3. Nemendur koma ekki með peninga í skólann að þarflausu og skilja ekki eftir verð­mæti í fötum sínum í fatageymslu né hafa með sér óviðkomandi hluti í skólann. Skór og útifatnaður nemenda skal vera merktur.
 4. Notkun reiðhjóla, hjólaskauta, hlaupahjóla eða hjólabretta á skólalóð er bönnuð vegna hættu á slysum, svo og allt snjókast að húsi, öku­tækjum og vegfarendum. Þeir sem koma á hjólum í skólann verða að geyma hjólin sín læst í hjólastöndum á skólatíma. (Þegar veður og færð leyfa.)