Denmark       United Kingdom

Íslenska sem 2. mál

Íslenska sem 2. mál

Íslenska sem annað tungumál er námsgrein fyrir nemendur sem ekki hafa nægilegt vald á íslensku til þess að geta stundað nám í íslenskum skólum til jafns við nemendur með íslensku sem móðurmál. Nám í greininni miðar að því að nemendur fylgi jafnöldrum sínum í öllu námi eftir því sem kostur er. Íslenska sem annað tungumál tengist því öllum námsgreinum. Í aðalnámskrá grunnskóla er þess getið að allir kennarar skólans séu íslenskukennarar. Það er því á ábyrgð hvers kennara að koma þannig til móts við barn af erlendum uppruna að sérhver kennslustund nýtist því sem best.

Hlutverk og ábyrgð námsversins:
Allir nemendur eiga rétt á að ganga í sinn heimaskóla, en jafnframt geta foreldrar sótt um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni.

Upplýsingabæklingur fyrir erlenda foreldra grunnskólanema:

http://reykjavik.is/info-about-compulsory-school-various-languages

Í námsveri Háteigsskóla fer fram kennsla í íslensku sem öðru tungumáli og jafnframt stuðningur í öðrum námsgreinum. Aðaláhersla er lögð á að byggja upp góðan grunn í íslenskri tungu og gefa innsýn í íslenska menningu og samfélag. Umsjónarmaður námsversins er umsjónarkennari nemandans á fyrsta ári í skólanum, nema á yngsta stigi. Ábyrgð á nemanda og samstarf við foreldra hans færist svo yfir á umsjónarkennara bekkjanna eftir að fyrsta ári lýkur. Áhersla skal lögð á mikið og gott samstarf umsjónarkennara og námsversins.

Móttökuáætlun: Verkefnastjóri sérkennslu hefur ábyrgð á móttöku erlendra nemenda í samvinnu við umsjónarkennara.
Stuðst er við handbók um móttöku innflytjenda: http://reykjavik.is/mottokuaaetlun-vegna-barna-med-islensku-sem-annad-tungumal

Nýir nemendur koma ávallt í ítarlegt móttökuviðtal áður en þeir hefja skólagöngu. Verkefnastjóri sérkennslu ber ábyrgð á viðtalinu en auk hans eru viðstaddir umsjónarkennari og í langflestum tilfellum túlkur.
Hjúkrunarfræðingur tekur stundum þátt í viðtalinu og fer yfir bólusetningar o.fl. Í sumum tilfellum eru stjórnendur viðstaddir og/eða fulltrúar frá Þjónustumiðstöð miðborgar og Hlíða.

Gátlisti:

 • Nemandi og foreldrar fá kynningu á skólanum.
 • Nemendur sem koma frá löndum utan EES, að undanskildum Bandaríkjunum, Kanada, Sviss, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, þurfa að vera búnir að fara í læknisskoðun. Ríkisborgarar Rúmeníu og Búlgaríu þurfa einnig að fara í læknisskoðun.
 • Nemandi getur hafi skólagöngu strax ef búið er að sækja um dvalarleyfi og kennitölu.
 • Óskað er eftir námsbókum á móðurmáli nemandans ef kostur er.
 • Óskað er eftir einkunnum, greiningargögnum o.fl.
 • Mikilvægi þess að viðhalda móðurmálinu er tíundað.
 • Óskað er eftir að nemandinn fái að horfa á íslenskt sjónvarpsefni og ekki eingöngu efni á erlendu máli.
 • Tómstundaúrræði og frístundaheimili eru kynnt. www.itr.is
 • Reglur um fjarvistir og ástundun eru kynntar. Mentor.is
 • Útivistarreglur eru kynntar.
 • Rætt er um námsgögn og hvað á að vera í skólatöskunni.
 • Rætt er um heimavinnu og til hvers er ætlast af nemandanum og foreldrum hans.
 • Fjallað er um heilbrigða og holla lífshætti og rætt sérstaklega um morgunmat, nesti og hádegismat.
 • Stundatafla nemandans er kynnt.
 • Væntingar foreldra og nemanda til skólans eru ræddar.
 • Væntingar skólans til nemanda og foreldra eru ræddar.
 • Nauðsynlegt er að skólinn hafi alltaf skráð rétt heimilisfang nemanda, síma, farsíma og netföng foreldra.
 • Fjallað er um sund og íþróttatíma og foreldrum gert grein fyrir að þetta er skyldufag.

Aðlögun: Aðlögun felur í sér einstaklingsmiðaða íslenskukennslu. Það fer eftir aldri og aðstæðum hvernig íslenskukennslan fer fram en dagleg einstaklingsbundin íslenskukennsla er nauðsynleg.
Yngstu nemendurnir fara yfirleitt beint í sinn umsjónarbekk en eiga rétt á stuðningi og kennslu í íslensku sem öðru tungumáli. Viðvera í námsveri og innganga eldri nemenda í umsjónarbekki er einstaklingsmiðuð.  
Eftir u.þ.b. 6 vikur er haldinn annar fundur með nemandanum og foreldrum hans. Markmiðið með þessum fundi er að rifja upp það sem áður hefur komið fram, kynna námsefni nemandans og svara spurningum og áhyggjum sem foreldrar kunna að hafa. Ef þörf er á skal biðja sérfræðing frá Þjónustumiðstöð að sitja fundinn.
Annar stuðningur og úrræði eru kynnt.

Haldin eru námskeið fyrir erlenda foreldra til þess að fræða þá um íslenskt skólaumhverfi og nám. Þar er mentor.is kynntur ásamt ýmsum öðrum gagnlegum vefsíðum. Skóladagatalið, starfsdagar, skólareglur og annað er einnig  kynnt. Orðalista má finna á http://reykjavik.is/ordalistar-eydublod-og-fleira-hagnytt

Félagsráðgjafi: Öllum nýjum nemendum nema í 1. bekk stendur til boða að fara í viðtal hjá félagsráðgjafa skólans.

Móttaka í bekkinn og ábyrgð umsjónarkennara: Umsjónarkennara ber að undirbúa sig og bekkinn undir mót­töku nemandans. Mikil áhersla er lögð á að nemandinn finni að hann sé velkominn og skipti máli. Mikilvægt er að byrja strax að þjálfa almennan orðaforða og samskipti á íslensku. Hægt er að nálgast orðabækur á móðurmáli nemandans í námsverinu.

Kennarar skólans bera ábyrgð á því að haga kennslunni þannig að allir nemendur skólans séu virkir þátttakendur.

Einstaklingsáætlun og heimavinna: Umsjónarkennarar og kennarar í námsveri bera sameiginlega ábyrgð á námsframvindu nemenda sem ekki hafa náð nægilegri færni í íslensku til þess að fylgja jafnöldrum sínum eftir í náminu. Leitast skal við að vinna saman að gerð einstaklingsáætlana og framkvæmd þeirra. Oft eru úrræði skipulögð með samvinnu sérkennara og kennara í námsveri.

Námsmat: Símat skal fara fram á verkefnum nemenda. Umsjónarkennari og kennari í námsveri meta hæfni nemenda og ákveða hvort þeir taka próf með bekk eða sérsamin próf.

Samskipti við foreldra: Á meðan nemandi er á 1. ári í íslenskum skóla ber verkefnastjóri sérkennslu ábyrgð á sam­skiptum við foreldra eldri barna. Ábyrgðin færist síðan yfir á umsjónarkennara í samvinnu við kennara námsvers. Á yngsta stigi bera umsjónarkennari og kennari námsvers sameiginlega ábyrgð. Mikilvægt er að senda skilaboð heim til nemenda á móðurmáli þeirra sé þess kostur. Ýmis skilaboð á erlendum tungumálum má finna á heimasíðu skóla- og frístundasviðs, http://reykjavik.is/skilabod-fra-skola-0. Annars skal leitast við að hafa skilaboðin á einfaldri íslensku.

Túlkaþjónusta:  Kennarar sem þurfa að panta túlk gera það á sérstöku eyðublaði og koma því til verkefnastjóra sérkennslu sem sér um framkvæmdina, eða senda tölvupóst. Í neyðartilfellum hefur starfsfólk skólans sjálft samband við túlka- og þýðingaþjónustu Intercultural Iceland, http://ici.is/, síma 517 9345 og neyðarsíma 893-6588. Túlkar hafa algjöra þagnarskyldu og ekki má nota börn sem túlka nema í algjörum neyðartilfellum.

Upplýsingar til nýrra nemenda: Upplýsingar til nýrra erlendra nemenda í námsveri Háteigsskóla má finna á pólsku, ensku, litháísku og spænsku.

 

Prenta | Netfang

Háteigsskóli, v/Háteigsveg, 105 Reykjavík | Sími: 530-4300, Símbréf (fax): 530-4301
Netfang: This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Íþróttahús: 553-6887 | Hjúkrunarfræðingur: 530-4306 | Halastjarnan, s. 411-5580 og 663-6102