Skip to content

Eineltisáætlun Háteigsskóla

MARKMIÐ OG LEIÐIR

Í Háteigsskóla höfum við það að meginmarkmiði að öllum nemendum líði vel í skólanum.

Við upphaf skólaárs eru börn og starfsfólk upplýst um samskiptastefnu og eineltisáætlun skólans. Þar kemur fram að einelti er ekki liðið í skólanum.

Í skólanum er starfandi eineltisteymi sem í eiga sæti skólafélagsráðgjafi, sérkennari og deildarstjóri. Auk þeirra taka sæti í teyminu umsjónarkennarar þess bekkjar/árgangs sem einelti/samskiptavandi kemur upp í hverju sinni.

Markvisst er tekið á og unnið með einelti og það stöðvað. Stuðst er við meðfylgjandi verkáætlun.

Eineltiskannanir eru lagðar fyrir í skólanum á hverju hausti og í framhaldi af því fer af stað vinna í þeim eineltismálum sem þar birtast.

Umsjónarkennarar aðstoða nemendur við að setja sér bekkjarreglur um samskipti haust hvert og að halda vakandi umræðu um einelti.

Skólafélagsráðgjafi leiðir starf eineltisteymis og sér um skráningu málanna. Teymið kemur saman á hverju hausti og í framhaldi af því er áætlunin kynnt foreldrum á kynningarfundum. Einnig eru settar upplýsingar í Háteig.

Nemendaverndarráð er upplýst um vinnu eineltisteymisins og er því til ráðgjafar. Í nemendaverndarráði sitja: Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri, sérkennari, skólafélagsráðgjafi og hjúkrunarfræðingur auk sálfræðings og kennsluráðgjafa frá ÞVMH.

SKILGREINING Á EINELTI

Einelti verður þegar einstaklingur lendir reglubundið og yfir ákveðið tímabil í neikvæðu áreiti, andlegu/líkamlegu, eða útilokun af hendi einstaklings eða hóps.

HVAÐ GETUR FORELDRI GERT SEM HEFUR GRUN UM EINELTI?

Foreldrar getur haft samband við skólafélagsráðgjafa, umsjónarkennara eða skólastjórnendur. Einnig er hægt að tilkynna um einelti á sérstöku eyðublaði sem má finna í krækju hér efst.

HVAÐ GETUR NEMANDI GERT SEM VERÐUR FYRIR EINELTI EÐA VEIT UM EINELTI?

Eðlilegt er að nemendur snúi sér fyrst til foreldra sinna. Nemendur geta einnig snúið sér beint til umsjónarkennara, skólafélagsráðgjafa, hjúkrunarfræðings eða skólastjórnenda. Enn fremur geta nemendur tilkynnt um einelti á áðurnefndu tilkynningablaði.

HVAÐ GERIR STARFSMAÐUR SKÓLANS SEM HEFUR GRUN UM AÐ EINELTI EIGI SÉR STAÐ?

Starfsmaður ræðir málið við umsjónarkennara eða einhvern meðlim eineltisteymis. Í framhaldi af því eru næstu skref ákveðin.

Verkáætlun fyrir eineltisvinnu í Háteigsskóla

Alltaf er unnið í fullu samráði við viðkomandi foreldra 

1. ÞREP - ATHUGUN

 • Ábending berst.
 • Skólafélagsráðgjafi hefur samband við foreldra þolanda og útskýrir hvernig málið verður unnið.
 • Skólafélagsráðgjafi kallar eineltisteymi, ásamt viðkomandi umsjónarkennurum, saman á fund. Ákveðnar eru aðgerðir til að tryggja strax öryggi þolanda.
 • Á þessum fundi er gerð áætlun um athugun sem fer fram í þeim árgangi sem er að ræða.
 • Þessi athugun skal ekki taka lengri tíma en eina viku.
 • Nemendaverndarráð er upplýst um málið.

2. ÞREP - ÚRVINNSLA

  • Að athugun lokinni kemur eineltisteymið saman á ný og fer yfir niðurstöður.
  • Ákvarðað er hvort um er að ræða einelti eða samskiptavanda og markmið sett.
  • Viðkomandi nemendur og foreldrar þeirra eru boðaðir á fund hjá skólafélagsráðgjafa og deildarstjóra. Þar er farið yfir málið og greint frá niðurstöðum athugunar og gert samkomulag um markvissa úrvinnslu..
  • Allir foreldrar í árganginum fá upplýsingar um að samskiptavandi hafi komið upp sem eineltisteymið sé að vinna með í samvinnu við viðkomandi foreldra.
  • Skólafélagsráðgjafi tekur einstaklingsviðtöl við viðkomandi nemendur reglulega yfir nokkurra mánaða tímabil, þar til markmið hefur náðst. Foreldrar þeirra fá upplýsingar jafnóðum.
  • Viðkomandi nemendum er boðið upp á persónulega ráðgjöf hjá skólafélagsráðgjafa í samráði við foreldra.
  • Til greina kemur að skólafélagsráðgjafi ræði við alla nemendur bekkjar eða árgangs í litlum hópum (3-4) þar sem skoðuð er staða hvers og eins og hvað þeir geta lagt af mörkum.

3. ÞREP – EFTIRFYLGD

  • Skólafélagsráðgjafi kallar eineltisteymið saman á fund. Farið er yfir vinnslu málsins, árangur skoðaður og metið hvort markmið hafi náðst. Ákvarðanir eru teknar um framhaldið.
  • Hafi markmið náðst er málinu lokað formlega í samráði við foreldra viðkomandi nemenda..
  • Skólafélagsráðgjafi sendir skilaboð til allra aðila málsins, starfsfólks skólans og skólastjórnenda um að málinu sé lokið með upplýsingum um árangur. Foreldrar í árganginum fá upplýsingar.
  • Nemendaverndarráð er upplýst um málið.
  • Fljótlega eftir skólabyrjun ár hvert er rætt við þá nemendur sem urðu fyrir einelti veturinn áður og athuguð staða þeirra og líðan.
  • Áætlunin er sveigjanleg þannig að teymið metur hverju sinni hvort ástæða sé til að bregða út af henni á einhvern hátt.
  • Sé það upplifun foreldra að þeir hafi ekki fengið hlustun skólayfirvalda vegna eineltis sem barn þeirra hefur orðið fyrir eða þeir telji að málinu hafi ekki verið sinnt sem skyldi geta þeir leitað til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar.
EFTIRFARANDI HEIMILDIR VORU HAFÐAR TIL HLIÐSJÓNAR VIÐ GERÐ ÞESSARAR ÁÆTLUNAR:
   • Olweusaráætlunin um einelti.
   • Gegn einelti - Handbók fyrir skóla. Ritstjórar: Sonia Sharp og Peter K. Smith. Æskan, Reykjavík, 2000.
   • Bullying - How to spot it, how to stop it. Guide for parents and teachers. Karen Sullivan. Rodale, London, 2006.
   • Saman í sátt. Leiðir til að fást við einelti og samskiptavanda í skólum. Erling Roland og Grete Sörensen Vaaland. Námsgagnastofnun, Reykjavík, 2001.
   • Punktar frá Kolbrúnu Baldursdóttur, sálfræðingi.
Sigríður Sigurðardóttir, skólafélagsráðgjafi